Þetta hefði getað gerzt í gær. Ég hafði birt fyrstu eða kannski aðra kartöflugreinina mína í Morgunblaðinu þá um morguninn og kunni ekki við annað en að slá á þráðinn til Matthíasar Johannessen ritstjóra til að vara hann við og biðja hann forláts á mótmælaholskeflunni, sem hlyti að ríða yfir ritstjórnina. Já, það er svolítið hringt, sagði Matthías. Ég hafði samt ekki gert annað en að reyna að skýra það fyrir lesendum blaðsins, hvað það kostaði þá í krónum og aurum að búa við bann við innflutningi á kartöflum erlendis frá. Þetta var á útmánuðum 1989. Kartöfluinnflutningsbannið kostaði neytendur fjárhæð, sem slagaði hátt upp í rekstrarkostnað allra grunnskólanna í Reykjavík það ár – og þetta voru bara kartöflurnar. Bændablaðið – eða var það Búnaðarblaðið Freyr? – teygði skömmu síðar flennifyrirsögn yfir þvera forsíðuna: Lýgur Þorvaldur? Allir stjórnmálaflokkarnir voru kartöfluflokkar frá mínum bæjardyrum séð: enginn þeirra sagði múkk. Og þennan kalda vetrardag þagði síminn á skrifborðinu mínu í Odda fram eftir morgni, menn hringdu heldur beint á ritstjórnina til að biðja um brottrekstur; sumir kvörtuðu við rektor Háskólans. Nema þá hringir síminn minn allt í einu að áliðnum morgni: mér fannst hann dansa á skrifborðinu. Þetta er Pálmi Jónsson, var sagt í símann þægilegri röddu. Ég sperrti eyrun, því að ég þekkti Pálma af afspurn. Hann var í mínum huga næsti bær við Ragnar í Smára, sem ég hafði kynnzt, þegar ég var strákur, Ragnar var vinur foreldra minna, og ég bar mikla virðingu fyrir honum. Þeir Ragnar og Pálmi áttu sömu hugsjón, sýnist mér: að standa sig vel í viðskiptum og gera öðrum gott, hvor á sinn hátt. Nema Pálma langaði bara að þakka mér, bláókunnugum manni, fyrir kartöflugreinina og hvetja mig til frekari skrifa. Hann rakti síðan fyrir mér reynslusögu sína úr viðskiptalífinu, svo að hárin risu á höfði mínu. Virðing mín fyrir ævistarfi þessa merka kaupsýlumanns varð þessa morgunstund að djúpri virðingu fyrir manninum á bak við starfið. Bara eitt símtal, og mér fannst ég hafa eignazt aldavin. Pálmi lézt tveim árum síðar. Við hittumst aldrei.
Hvað sagði Pálmi mér í símann? Hann rifjaði upp útistöðurnar, sem hann hafði lent í við heildsala og aðra, þegar hann stofnaði Hagkaup 1959. Hann lýsti því, hvernig maður gekk undir manns hönd til að bregða fyrir hann fæti. Hvað var hann að vilja upp á dekk? Þeir litu á Pálma sem aðskotadýr í viðskiptalífinu, ef líf skyldi kalla. Orðið ,,viðskiptalíf“ hefur verið til í málinu síðan 1880, Arnljótur Ólafsson smíðaði það og notaði í Auðfræði sinni, og það átti vel við í þá daga, enda var innflutningur matvæla til landsins líflegur og frjáls fram undir 1930. Þetta voru þau ár, þegar búðarborðin í Thomsens magasíni svignuðu undan innfluttum ostum, kjöti og pylsum, og hljóðfærasláttur barst innan úr búðinni út á götu. Árin 1920 til 1930 fluttu Íslendingar inn til landsins á annað hundrað tonn af osti auk annars á hverju ári. En síðan var landinu lokað, að kröfu bænda á Alþingi. Erlend viðskipti voru hneppt í fjötra, og samkeppni lagðist af: samráð varð reglan. Vel tengdir milliliðir fluttu inn varning frá útlöndum í krafti sérumboða, sem stjórnmálaflokkarnir skiptu gjarnan á milli sín og sinna manna. Milliliðirnir smurðu ótæpilega ofan á innkaupsverðið og komust upp með það, enda var vöruskortur í landinu. Skorturinn færði þeim drottnunarvald yfir viðskiptavinum sínum, og þeir neyttu lags til að rýja viðskiptavinina inn að skinni. Þeir notuðu vini sína og velunnara í stjórnarráðinu til að drepa alla hugsanlega samkeppni, helzt í fæðingu. Hagkerfið var í reyndinni hálfsovézkt þessi ár frá 1930 til 1960: bændur og kaupfélög, heildsalar og útvegsmenn sátu í framsætinu, neytendur voru geymdir aftur í skotti. Landið moraði í spillingu eins og ævinlega, þegar höft og skömmtun eru ær og kýr viðskiptalífsins, en fáir fengu dóma. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn réðu lögum og lofum: þetta ástand var þeirra sköpunarverk, og hinir flokkarnir dönsuðu með. Afstaða heildsalanna og bandamanna þeirra til Pálma Jónssonar og viðskiptahátta hans markaðist af ásigkomulagi landsins: þeir voru hræddir við hann.
Pálmi var bóndasonur norðan úr Skagafirði (hann sagði mér það ekki í símann, ég fletti því upp), hann tók stúdentspróf ári á undan jafnöldrum sínum, sem var sjaldgæft um sveitastráka, lauk síðan lagaprófi í Háskóla Íslands og hellti sér út í alls kyns rekstur. Hann fór til New York eftir stríðið eins og margir aðrir forvitnir og framsæknir Íslendingar og heillaðist eðlilega af ýmsu því, sem þar var að sjá. Og þangað sótti hann hugmyndir bæði fyrr og síðar: hann stofnaði til að mynda fyrsta hamborgarastaðinn á Íslandi, sem var þá lítið annað en lambakjöt og kartöflur, og fiskur handa fátæklingum. Þetta var bylting. Eitt leiddi af öðru. Þegar hann stofnaði Hagkaup, opnaði hann búðina í fjósi uppi í Hlíðum í Reykjavík og gerði næstum allt sjálfur; engin yfirbygging þar. Þó hafði hann sér til halds og trausts enskan ráðgjafa, aldinn og virðulegan heiðursmann; það þótti heildsölunum sérstaklega tortryggilegt. Ég kom aldrei í fjósið í Engihlíð, en konan mín kom þangað og hefur lýst því fyrir mér. Þetta var merkileg búð. Pálmi gaf út verðlista handa viðskiptavinum sínum, en það var nýlunda hér, enda hafði engin verðsamkeppni tíðkazt áratugum saman í viðskiptum á Íslandi. Pálmi markaði sér þá sérstöðu, að hann leit á sig sem umboðsmann innlendra kaupenda, ekki erlendra seljenda. Það var nýlunda. Mig rekur minni til þess úr forsetakjörinu 1968, að einhverjir stuðningsmenn Gunnars Thoroddsen sendiherra reyndu að koma höggi á hinn frambjóðandann, Kristján Eldjárn þjóðminjavörð, með því að dreifa þeirri sögu, að sézt hefði til frú Halldóru Eldjárn að verzla – hvílíkt og annað eins! – hjá Pálma í Hagkaup, nema það ætti að hafa sézt til hennar í Hagkaupssloppi, ég man ekki glöggt hvort var. Þetta var tónninn. Hagkaup var að verða tíu ára.
Pálmi stofnaði Hagkaup á heppilegum tíma að því leyti, að viðreisnarbyltingin hófst sama ár, 1959. Aukin samkeppni í smásöluverzlun fyrir tilstilli Pálma rímaði vel við leysingarnar í efnahagslífinu, afnám ávaxtabannsins og allt það. Þessar tvær byltingar studdu hvor aðra. Faðir minn, Gylfi Þ. Gíslason, sem var viðskiptaráðherra í viðreisnarstjórninni 1959-1971, og Jónas H. Haralz hagfræðingur, vinur hans og einn helzti efnahagsráðunautur stjórnarinnar, köstuðu á góðum stundum milli sín þeirri kenningu, að trúlega hefði Pálmi með stofnun og starfrækslu Hagkaups tryggt launþegum meiri og varanlegri kjarabætur en samanlögð verklýðsbarátta viðreisnaráranna. Þeir báru báðir djúpa virðingu fyrir Pálma. Mér er ekki kunnugt um, að Pálmi hafi nokkurn tímann beðið um fyrirgreiðslu í viðskiptaráðuneytinu öll viðreisnarárin. Það var ekki hans stíll.
Hagkaup varð smám saman að stóru fyrirtæki í íslenzku samhengi og færði sér í nyt þá hagkvæmni, sem býr í stórrekstri, og gat með því móti haldið vöruverði í skefjum til hagsbóta fyrir viðskiptavinina. Einnig þetta var nýjung í smásöluverzlun. Stofnun og rekstur Hagkaups var merkur áfangi á langri leið, en samt engin endastöð. Pálmi Jónsson sótti einnig til Bandaríkjanna aðra skylda hugmynd, sem skipti sköpum fyrir Íslendinga langt umfram veðursælli og suðlægari Evrópuþjóðir: hann átti veg og vanda af byggingu Kringlunnar í Reykjavík 1987. Kringlan var fyrsta stóra verzlunarmiðstöð landsins, þar sem tugir fyrirtækja bjóða viðskiptavinum vöru sína og þjónustu á einum og sama stað. Það er öðrum fremur hans verk, að Íslendingum er nú kleift að kaupa inn í friði fyrir roki og rigningu. Hann skildi, að fólk hefur gaman af að verzla í góðu umhverfi. Bóndasonurinn átti góðar minningar um kaupstaðarferðir bernskuáranna, því að þær voru ekki eingöngu innkaupaferðir, heldur skemmtiferðir, ein helzta skemmtan fólksins fyrir utan kvöldvökurnar heima.
Pálmi Jónsson barst ekki mikið á í einkalífi sínu, ekki frekar en Ragnar í Smára. Pálmi bjó með fjölskyldu sinni í Smáíbúðahverfinu, hann eignaðist ekki eigið húsnæði fyrr en hann var kominn undir fimmtugt. Þeir, sem kynntust honum, hafa lýst honum sem hóglátu prúðmenni. Dætur hans hafa í viðtali við Morgunblaðið lýst vinnusemi hans og makalausri ósérhlífni. Vinnan var hugsjón, knúin áfram af óbilandi framkvæmdaþrá og framkvæmdagleði. En öll þessi vinna útheimti fórnir: hann lét það ekki eftir sér að láta alla æskudraumana rætast, til þess hafði hann ekki tíma. Hann hafði látið sig dreyma um að aka góðum bíl yfir Bandaríkin þver og endilöng til að njóta með öðrum víðáttunnar í þessu mikla landi, sem hafði gefið honum svo góðar hugmyndir. Af því varð þó ekki. Aðdáun hans á víðáttu Bandaríkjanna og þá einnig á víðáttum Íslands virðist hafa rímað vel við hugsjón hans um stórfelldar framfarir í viðskiptaháttum Íslendinga. Þann draum lét hann rætast.